Í dag fimmtudaginn 17. apríl eru 70 ár frá því að Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar var stofnaður. Við sendum klúbbnum og félögum hans okkar bestu kveðjur í tilefni dagsins og óskum þeim áfram velfarnaðar í störfum. Vel er fjallað um stofnun klúbbsins á Facebook síðunni hans og þar segir m.a.:
“ Í gerðarbókum klúbbsins má sjá eftirfarandi ritað um upphafið: “Undirbúningur að stofnun Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar var í stuttu máli þessi: Haustið 1954 átti umdæmisstjóri hr. Þorvaldur Árnason tal við forseta Rótarýklúbbs Siglufjarðar, hr. Pétur Björnsson kaupmann um möguleika á stofnun Rótarýklúbbs í Ólafsfirði og bað hann að kynna sér það mál nánar. Átti Pétur síðan tal við séra Ingólf Þorvaldsson um þetta mál nokkrum sinnum, skýrði fyrir honum helstu atriði í stefnumálum Rótarý, markmið og kenningar. Ræddi séra Ingólfur þetta mál við ýmsa borgara í Ólafsfjarðarkaupstað og fékk góðar undirtektir.
Laugardaginn 16. apríl 1955 mætti hér á staðnum umdæmisstjóri Þorvaldur Árnason og forseti Siglufjarðarklúbbsins, hr. Pétur Björnsson kaupmaður. Voru haldnir 2 viðræðufundir eða undirbúningsfundir, þar sem umdæmisstjóri reifaði málið, skýrði Rótarýhugsjónina og starfatilhögun klúbbanna og ræddi Pétur Björnsson sama efni. Umdæmisstjóri vann svo að því að gera starfsgreinalista með 40 starfsheitum og tilnefndi 24 menn með ákveðnum starfsgreinaheitum til að gerast stofnendur Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar. Stofnfundur var síðan auglýstur kl. 8 ½ sunnudaginn 17. apríl 1955. Rótarýklúbbur Siglufjarðar er verndari (sponsor) klúbbur hins nýja klúbbs segir í gögnum klúbbsins.” Á stofnfundinn mættu 20 af þeim 24 körlum sem höfðu verið boðarðir. Fyrstu stjórn klúbbsins skipaði umdæmisstjóri en í hana völdust, auk endurskoðenda: Forseti- Ingólfur Þorvaldsson prestur. Varaforseti- Magnús Gamalíelsson útgerðarmaður Ritari- Jóhann J. Kristjánsson héraðslæknir Stallari- Randver Sæmundsson hótelstjóri Fyrrverandi forseti- Sigurður Guðjónsson bæjarfógeti Gjaldkeri- Guðmundur Jóhannsson bæjargjaldkeri Endurskoðandi- Sigvaldi Þorleifsson kaupmaður Vara endurskoðandi- Björn Stefánsson kennari. Strax daginn eftir eða 18. apríl var annar fundur haldinn og var sá til að skipa í nefndir samkvæmt siðum íslenska Rótarýumdæmisins.
Klúbburinn fékk fullgildingu Alþjóðlegu Róatarýsamtakanna þann 31. mai og um sumarið héldu menn rækilega upp á nýjan klúbb. 16. júlí 1955 fór fullgildingarhátið klúbbsins fram og þar voru viðstaddir rótarýfélagar frá öðrum klúbbum og er talið að um 100 manns hafi sótt hátíðina sem lauk með dúndur-dansleik eins og sagt er. Það er ógjörningur að ætla sér að fara yfir söguna alla , en eitt af því merkasta sem félagar hafa fengist við er ritun fréttabréfa allt frá 5. fundi, eða 31. mai 1955, að tillögu Sigurðar R. Guðmundssonar íþróttakennara. Þessi siður er enn haldinn og skrifa félagar vikulega bréf þar sem sagðar eru almennar fréttir af atburðum liðinnar viku í bæjarfélaginu og þjóðfélaginu, auk frétta af veðri, færð, gjöfum landsins og aflabrögðum o.s.frv. flest þessara bréfa eru til og stór hluti þeirra er á internetinu, þar sem um 2.500 bréf voru skönnuð fyrir 5 árum og nokkru seinna gerði einn félagi klúbbsins þau aðgengilega á netinu:
https://sites.google.com/view/frettabref/fr%C3%A9ttabr%C3%A9f
Á þessum 70 árum hefur margt verið gert og ýmislegt gerst, flest samfélaginu til heilla. Má nefna að á starfstímanum hafa verið haldnir 3.315 fundir, auk þess að skrifa fréttabréfin er einn af föstu fundarliðunum að lesa kvæði kvöldsins, siður sem hófst árið 1961. Auk áðurnefndra dagskrárliða eru erindi sem sum hver eru mjög vönduð og altítt að fólk með sérfræðiþekkingu á ýmsum málum séu fengið til að halda þau, af og til með aðstoð rafrænu tækninnar sem nú býðst. Þau verk sem klúbburinn er þekktastur fyrir er eflaust vinnan við ljósakrossana í kirkjugörðum Ólafsfjarðar, en þeirri vinnu hefur verið sinnt síðan 1992. Lengst af hafa klúbbfélagar smíðað krossana sjálfir úr plaströrum, en á síðasta ári hófst hönnunarvinna með íslenskum rafverktökum og kínverskum framleiðendum á nýrri gerð krossa. Nýjungin er m.a. í því fólgin að lýsingin nær yfir allan krossin og er byggð á led tækninni. Framleiddir voru 500 krossar og gefur auga leið að þar var um mjög stóra fjárfestingu að ræða, en verkefnið var klárað í einni svipan með aðstoð góðs fólks í samfélaginu og víðar. Klúbbfélagar hafa auk krossanna sett upp jólatré í garðinum síðan um 1960. Félagar hafa séð um umhirðu á skíðstökkpallinum, undanfarna áratugi og er málningarvinna framundan á þessu ári. Nú hin seinni ár hefur klúbburinn einbeitt sér að því að styrkja hin ýmsu málefni í samfélaginu og hefur athyglin beinst einkum að yngri kynslóðinni í auknu mæli, en alls ekki eingöngu.
Áður fyrr var klúbburinn þekktur fyrir hið öfluga skiptinemastarf sem fram fór, en því miður reynist þrautin þyngri að reyna að endurreisa það. Farið var í ferðalög bæði innanlands og til útlanda, en ekki hefur verið farið síðan í mars árið 2014, en vonir standa til að unnt verði að efna til ferðar á haustögum þetta árið. Árshátíðir klúbbsins sem haldnar voru hvern vetur fram undir síðustu aldamót þóttu veglegar, skemmtilegar og þ.a.l eftirsóknarverðar. Félagar sáu um allt sem þarf við slíka skemmtun, bæði matargerð og skemmtiatriði og allt þar á milli. Líkt og í öðrum klúbbum hefur klúbburinn fengist eilítið við gróðursetningar, uppgræðslu og slíka hluti, auk þess að styrkja skógræktarfélagið í Ólafsfirði með peningum til starfsins. Klúbburinn á 3 myndasöfn, 1 á íþróttahúsinu um “Leiftursævintýrið” og svo 2 til skiptanna á suðurvegg Tjarnarborgar. Ratleik og myndir Svavars B. af aurskriðunum 1988. Það er varla hægt að skila við þessa upptalningur án þess að nefna að klúbburinn hefur tvisvar lagt íslensku Rótarýhreyfingunni til umdæmisstjóra. Lárus Jónsson var umdæmisstjóri árið 1967-68, og Kristinn G. Jóhannsson var umdæmisstjóri árið 1978-79. Af ýmsu fleiru er að taka af því sem félagar hafa tekið sér fyrir hendur og er ógerningur að telja það allt upp. Enda gefur það sem komið er ágæta mynd af störfum klúbbsins. Eins og glögglega má sjá í byrjun þessara samantekta var Rótarýhreyfingin eingöngu fyrir karla allt þar til dómur féll í USA um þátttöku kvenna árið 1989. Fyrsta konan í okkar klúbbi kom nokkru seinna eða árið 2001. Félagar í klúbbnum eru nú 28 á breiðu aldursbili, eða frá 38 ára til 96 ára. 7 konur 21 karl og hafa konur aldrei verið fleiri en nú.
Félögum mun að öllu óbreyttu fjölga um 2 á hátíðarfundi sem haldinn verður í Tjarnarborg 3. mai n.k. og fylla þá s.k.v. framansögðu þrjá tugi. Félagar hafa að venju veg og vanda af undirbúningi og skemmtiatriðum á hátíð þeirri sem haldin verður að kvöldi 3. mai í Tjarnarborg og mun þar kenna ýmissa grasa og er fyrirmyndin sótt til árshátíðinna frá fyrri tíð. Auk hátíðarinnar hefur stjórn klúbbsins sett saman dagskrá fyrir félaga og gesti annarra klúbba frá hádegi þann dag, þar sem ýmislegt verður í boði. Þá er ekki loku fyrir það skotið að tímamótanna verði minnst á fleiri vegu þegar líður á árið. Þegar komið er að enda þessa innleggs er e.t.v. rétt að enda það á sama hátt og gert er á fundum, með klúbbsöng Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar, sem sr. Ingólfur Þorvaldsson samdi við lýsandi kvæði eftir Hartmann Pálsson. Eldarnir brenna, elfur tímans renna. Ólgandi lífið hefur margt að bjóða. Einn lyftir bjargi, annar stýrir penna, en orðið var fyrsti hreyfimáttur þjóða. Höfundi lífsins helgum starfið góða. Að loknum söng, er svo farið með fjórprófið: “Er það satt og rétt? Er það drengilegt? Eykur það vinsemd og vinarhug? Er það öllum til góðs?” Forseti slær í bjölluna og slítur fundi. “
Ítrekum hamingjuóskir til allra Rótarýfélaga á Ólafsfirði, starf ykkar er til fyrirmyndar og eftirbreytni. Gangi ykkur vel næstu 70 ári – og auðvitað enn lengur.