Laugardagurinn 17. september 2022 verður lengi í minnum hafður hjá Rótarýklúbbi Reykjavíkur.
Klúbbnum hafði verið falið að sjá um dagskrá tengda Action Summit fundinum 2022 fyrir svæði 17,18,19 og 20a. Sú dagskrá bar enska heitið "disease prevention" og viðeigandi að okkar klúbbur tæki að sér það þema, í ljósi bakgrunns margra klúbbfélaga. Hafði stjórn klúbbsins ákveðið að gera viðbrögð Íslands við COVID-19 farsóttinni að umræðuefni, enda þar vel af verki staðið af Íslands hálfu og margt fyrir aðra af reynslu okkar að læra.
Dagskráin fór þannig fram að forseti og ritari klúbbsins tóku á móti hópi 20 gesta á Hilton Hótelinu klukkan 14 á laugardeginum. Ekið var í rútu til Embættis landlæknis. Þar nutu gestir frábærs erindis Ölmu Möller, klúbbfélaga og landlæknis, um viðbrögð almannavarna, sóttvarnalæknis og landlæknis við farsóttinni. Dagurinn var einstaklega fagur og gaman fyrir gesti að horfa út yfir sundin blá en afar fallegt útsýni er úr fundarsal embættisins.
Að þessu loknu var haldið sem leið lá á Landspítala. Þar tók Runólfur Pálsson, forstjóri spítalans, á móti hópnum í svokölluðum Hringsal á Barnaspítala Hringsins. Þar sagði hann frá viðbrögðum spítalans og því hvernig gögn hefðu leikið lykilhlutverk í skipulagi aðgerða.
Síðan var haldið til Íslenskrar erfðagreiningar. Þar tók Ingileif Jónsdóttir prófessor á móti hópnum og boðið var upp á kaffiveitingar. Að því loknu flutti Ingileif áhugavert erindi um Íslenska erfðagreiningu, einstakt starf þeirra í erfðafræði og síðan sérstaklega hvernig þekking þeirra nýttist við vinnslu sýna og raðgreiningu og beitingu hennar við rakningu skipti sköpum.
Nú var dagur að kveldi kominn og haldið upp á Grand Hótel. Þar var boðað til sérstaks rótarýfundar klukkan 18. Var fundurinn haldinn í okkar hefðbundna fundarsal og viðeigandi að síðasti fundur okkar þar, væri þessi sérstaki fundur.
Auk gestanna 20 (frá Norðurlöndunum og Stóra Bretlandi) sem höfðu fylgt okkur um daginn bættust nú við svæðisstjóri Rótary og Hans Kluge, forseti Evrópusvæðis Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem var sérstakur gestur á summit-ráðstefnunni. Að auki voru nokkrir klúbbfélagar úr Rótarýklúbbi Reykjavíkur á staðnum, þar á meðal flestir úr stjórninni, Jón Karl Ólafsson og frú, Alma Möller landlæknir og síðan bættustSigrún Hjálmtýsdóttir og Kjartan Óskarsson í hópinn.
Forseti klúbbsins hélt tölu, bauð gesti velkomna og sagði frá langri sögu klúbbsins, áskorunum á farsóttartímum og fleiru. Að auki tilkynnti hann ákvörðun stjórnar að tvöfalda framlag í Polio-sjóðinn á þessu ári, en góður rómur var gerður að þeirri ákvörðun á meðal fundargesta.
Undir kvöldverði fór ritari klúbbsins yfir dagskrá dagsins. Hann dró fram fjögur meginatriði sem virðast hafa skipt sköpum í viðbrögðum Íslands við COVID-19 farsóttinni: 1) að greina fljótt og rekja smit og beita þeirri þekkingu við markvissar sóttvarnir, 2) að Landspítala var falið að halda utan um birgðahald og skiplagningu aðfanga vegna faraldursins, 3) að Landspítali setti upp sérstaka COVID-19 göngudeild, þar sem sjúklingar voru tengdir við fagfólk og fengu stigskipta þjónustu eftir alvarleika veikinda og loks 4) opin, auðmjúk og heiðarleg samskipti við almenning, leidd af "þríeykinu" svokallaða.- Ritari tengdi þessi samskipti og viðbrögðin öll við hin fjögur gildi Rótarýhreyfingarinnar.
Að þessu loknu komu upp Diddú (söngur), Kjartan Óskarsson (klarinett) og Gunnar Snorri Gunnarsson (píanó) og fluttu fjögur lög við mikinn fögnuð viðstaddra.
Undir lokin komu upp nokkrir gestanna og þökkuðu kærlega fyrir sig, skipst var á fánum og ljóst að almenn ánægja var með daginn, sem var klúbbnum til sóma.