Hluti ferðafélaga í jeppaferð Rótarýklúbbsins hittist að
morgni laugardagsins 27. ágúst á Olís bensínstöðinni við Rauðavatn, en þaðan
var haldið austur fyrir fjall og upp Skeið. Stoppað í Árnesi þar sem fleiri
félagar bættust í hópinn, en eftir stutt stopp var farið upp í Hrauneyjar þar
sem fararstjórinn Friðrik Pálsson tók á móti hópnum. Í Hrauneyjum var boðið upp
á kaffi og Friðrik fór yfir ferðaáætlun dagsins. Frá Hrauneyjum var haldið sem leið lá upp að bílastæði
skammt frá Vatnsfellsvirkjun og horft yfir að virkjuninni og svæðinu í kring um
hana í frábæru veðri. Þar skoðaði hópurinn einnig stærstu flautu landsins og
þótt víðar væri leitað, en það er listaverk eftir Finnboga Pétursson sem heitir
Tíðni og var reist í tengslum við byggingu
virkjunarinnar. Listaverkið er í raun eins og stór hljóðpípa og myndar
hljóð af tíðninni 50 rið, sem er sama tíðni og rafmagnsins í orkukerfinu, en á
mörkum þess að eyrað nemi það. Frá Vatnsfelli var haldið til baka og inn á
Veiðivatnaleið og þaðan inn í Veiðivötn.
Fossvatnakvíslin reyndist ekki farartálmi og í sólskini og
logni var stoppað við Tjaldvatn, en þar var nokkur hópur veiðimanna á vegum
bænda að dást að, mæla og vikta afla sem veiddur hafði verið í net um morguninn.
Eftir spjall við bændur og veiðimenn var keyrður litli
vatnahringurinn og upp með Litla Sjó og þaðan í Hraunvötn. Í Hraunvötnum var áð
og nestið borðað í dásamlegu veðri við Rauðagíg.
Að því loknu var haldið eftir Jökulheimaleið sem leið lá inn í Jökulheima. Það var
ágæt leið og lítið um ófærur, en nánast enginn gróður því vegurinn liggur um hraun
og sand.
Í Jökulheimum, sem eru í Tungnárbotnum nærri jaðri
Tungnárjökuls, eru skálar Jöklarannsóknarfélagsins. Svæðið er fremur auðnarlegt
og gróðursnautt, en útsýnið var tignarlegt þennan dag yfir á jökulinn og niður
með Tungná.
Frá Jökulheimum var haldið til baka og farið um Heljargjá,
sem liggur í Gjáfjöllum sem eru um 7 km vestan og norðvestan við Jökulheima. Eftir
stutt stopp í Heljargjá var haldið framhjá fjallinu Mána sem sker sig talsvert
úr í landslaginu og til vestur eftir fremur erfiðum vegi, a.m.k. á köflum, norður
fyrir Þórisvatn. Var ekki farið hratt yfir á þessum kafla. Þegar komið var yfir
tvær brýr við Sauðárveitu inn á Sprengisandsleið lagaðist vegurinn talsvert,
þótt hann væri á köflun nokkuð sundurgrafinn, en þaðan var haldið til Hrauneyja.
Borðað var og gist á Hótel Hálandi sem fararstjórinn Friðrik rekur og er skammt
austan við Hrauneyjar.
Á laugardeginum var farið yfir á Búðarháls á nýlegri brú við
gamla ferjustaðinn við Hald. Þaðan var haldið eftir jeppavegi upp með Tungná,
meðfram Sporðöldulóni og áfram upp með Köldukvísl þar til komið var að fossinum
Nefja, sem einnig gengur undir nafninu Skeggi. Það er fallegur foss og er mjög
vinsæll veiðistaður sagður neðan hans.
Eftir stutt stopp var áfram haldið eftir vegslóða upp með
Köldukvísl þar til komið var að Fagrafossi, en það er einstaklega fallegur foss
og kom okkur flestum mjög á óvart. Umhverfið í kringum fossinn er mikilfenglegt,
ekki síst einstaklega fallegt gljúfrið neðan við fossinn. Eftir að hafa skoðað
fossinn og umhverfi hans var haldið norður yfir Búðarhálsinn yfir að Þjórsá og
áð þar sem sást vel yfir að fossinum Dynk, sem er mikill og fallegur foss í
Þjórsá. Það var borðað nesti og útsýnisins
notið. Síðan var haldið til baka yfir miðjan Búðarhálsinn og að Haldi. Hluti
hópsins fór þaðan til Reykjavíkur, en hluti fór í vöfflukaffi í Hrauneyjar. Að
því loknu var haldið niður að Fremra Haldi þar sem skoðuð var stytta af
Sigurjóni Rist vatnamælingamanni.
Þá var haldið niður á Rangárvelli og ekið um gömlu Heklubrautina
frá Selsundi að Gunnarsholti. Við Gunnarsholt lauk ferðinni formlega og skyldu
leiður, eftir skemmtilega ferð í sérlega góðu veðri og eftir frábæra leiðsögn
Friðriks félaga okkar.