Rótarýklúbbur Reykjavíkur

Rótarýklúbbur Reykjavíkur var fyrsti rótarýklúbburinn á Íslandi og ruddi hann leiðina fyrir starfsemi þessarar hreyfingar hér á landi.  Síðan þá hefur rótarýklúbbum fjölgað jafnt og þétt hér á landi og eru nú 32 klúbbar starfandi hér og er stefnt að frekari fjölgun.  Á Íslandi eru rúmlega 1.100 rótarýfélagar skráðir í rótarýklúbba.   Rótarýhreyfingin er alþjóðafélagsskapur leiðandi einstaklinga, sem sameinast um þá ósk að þjóna öðrum án tillits til trúarbragða, stjórnmála, kynþátta eða þjóðernis. Þá er viðurkennt að vilji til þjónustu sé frumskilyrði allra starfa sem séu vel af hendi leyst og hæfileikinn að setja sig í spor annarra manna, skilja sjónarmið þeirra og veita þeim aðstoð og ánægju. Rótarý leitast við að ná þessu markmiði með því að stuðla að skilningi og friði meðal allra manna og þjóða, efla frelsi og réttlæti í viðhorfum til mannlegs lífs en taka um leið fullt tillit til hins sérstaka í fjölbreytninni og fjölbreytninni í því sérstaka.